Sannfærandi Hungurleikar


Kvikmyndin Hungurleikarnir sló aðsóknarmet þegar hún var frumsýnd í Bandaríkjunum fyrr í þessum mánuði og ekkert lát hefur verið á vinsældum hennar. Myndin er gerð eftir samnefndri bók Suzanne Collins sem er sú fyrsta af þremur. Bækurnar hafa verið vinsælar hjá unglingum og sumir hafa borið vinsældir Hungurleikanna saman við vinsældir Twilight seríunnar. Þessi mynd er samt ekkert síður við hæfi fullorðinna en unglinga, og mun betri en nokkur Twilight myndanna.
Hungurleikarnir gerast einhvern tímann í framtíðinni í ríki sem heitir Panam, en það stendur þar sem Bandaríkin voru áður. Til þess að hafa stjórn á þeim tólf svæðum sem heyra undir höfuðborgina er þess krafist að hvert svæði afhendi á hverju ári einn pilt og eina stúlku, svokölluð framlög. Framlögin eru síðan látin berjast til síðasta blóðdropa á sérhönnuðum leikvangi, þar til aðeins eitt þeirra lifir og allt er sent út í sannkölluðu raunveruleikasjónvarpi.
 
Þetta hljómar kannski eins og of myrkt efni fyrir mynd sem ætluð er ungu fólki, en leikstjóranum tekst að gera myndina sannfærandi án þess að velta sér of mikið upp úr ofbeldinu. Ég sá myndina með unglingsstúlku á fjórtánda ári sem fannst hún stórkostleg, enda aðdáandi bókanna. Hér á landi er myndin bönnuð innan 12 ára og hún er varla við hæfi yngri barna.
 
Eitt það ánægjulegasta við myndina er aðalsöguhetjan, Katniss. Hún er leikin af Jennifer Lawrence, leikkonu sem vakti fyrst raunverulega athygli í fyrra eftir frammistöðu sína í myndunum Winter's Bone og X-Men: First Class, en þar á undan hafði hún leikið í sjónvarpi og örfáum bíómyndum. Lawrence stendur sig mjög vel í myndinni og er heillandi sem hin þrjóska og dugandi Katniss. Hér er loks komin kvenhetja sem gerir meira en að væla og bíða eftir kærastanum, án þess að hún sé einhver ofurhetja eða vöðvabúnt.
 
Aðrir leikarar skila sínu almennt með sóma og þá sérstaklega Stanley Tucci sem hinn skrautlegi kynnir Hungurleikanna, og Elizabeth Banks sem hin sérkennilega umsjónarkona keppendanna frá svæði tólf. Woody Harrelson er líka skemmtilegur sem drykkfelldur fyrrum sigurvegari leikanna, og rokkarinn Lenny Kravitz kemur við sögu sem Cinna, stílistinn sem undirbýr keppendur fyrir framkomu sína á Hungurleikunum.
 
Aðstandendum myndarinnar tekst vel upp í því að skapa framandi heim í myndinni, hvort sem um er að ræða hinn fátæklega heimabæ Katniss á svæði tólf, eða hinn ríkmannlega og úrkynjaða heim höfuðborgarinnar Capitol. Búningar, tónlistin, hár og förðun vinnur allt saman að því að skapa sannfærandi mynd. Þó að myndin sé í lengra lagi og sjálfir Hungurleikarnir hefjist ekki fyrr en um miðbik myndarinnar, verður hún aldrei langdregin eða leiðinleg ef fólki leyfir sér að stíga inn í heiminn til fulls.
 
Þetta er mynd sem foreldrum er óhætt að kíkja á með unglingunum sínum og hún er ekki síður við hæfi fullorðinna en þeirra sem yngri eru. Hér er komin fram saga sem höfðar að einhverju leyti til sama hóps og Harry Potter eða Lord of the Rings myndirnar, þó að hér komi töfrar og galdraverur ekki við sögu. Það kemur ekki á óvart að þegar er búið að tilkynna um framleiðslu næstu myndar, Catching Fire, sem er væntanleg á næsta ári.
 
Hungurleikarnir (2012)
Jennifer Lawrence, Josh Hutcherson, Liam Hemsworth, Elizabeth Banks, Stanley Tucci, Woody Harrelson.
 
Sýnd í Smárabíó, Háskólabíó, Laugarásbíó og Borgarbíó, Akureyri.