Vinurinn óvinur


Ég ætla að reyna að setja mig í spor konu sem á bágt. Konu sem á við vandamál að stríða. Vandamál sem smitar og veikir. Sem getur bitnað illilega á hinum nánustu en bitnar þó verst á henni.
Það nagar hana, svertir samviskuna, brýtur niður sjálfsmyndina. Og hnýtir kvíðahnút í maga. Hringrásin er svört og illrjúfanleg í þessum aðstæðum. Því eitt kallar á annað. Kvíðinn og léleg sjálfsmyndin. Minnimáttarkenndin. Hún kallar á fingurbjörg. Af áfengi. Og þá fer boltinn að rúlla.
 
Hann getur rúllað ansi hratt og lengi. Eins mikið og hann vindur upp á sig, vindur hann utan af kraftinum og voninni. Lækkar allan skalann og kemur konunni á botninn. Þar sem hún situr og getur ekki annað. Reynir að deyfa þessar svörtu tilfinningar með fullu glasi, heilli flösku. Einn einasti vinur í heimi. Svo svarinn óvinur þessi vinur. Og klókur.
 
Hann er erfiður. Því hann sýgur sig fastan. Þegar illa er komið og mál að rífa sig upp. Ef hún ætlar ekki að deyja. Þá er erfitt að komast tilbaka. Því eitrið tekur á.
 
Líkaminn reynir að tjasla sér saman. Eftir daga án næringar. Daga án hvíldarsvefns. Daga hugarfars sem kalla má eyðandi og svíðandi. Ef líkamanum tekst á endanum að vinna úr viðbjóðnum, er hugurinn eftir. Hann á lengra í land. Ósvífinn ræðst hann gegn jákvæðum hugsunum og bindur hnút á allar taugar, allan kjark.
 
Þá er gott að eiga vin. Og reyna að vera hreinskilin. Það er erfitt fyrir brotna sál, en hægt. Að leyfa sér að sækja þangað stuðning. Aðstoð gegn svartnættinu.
 
Að geta hlustað á gagnrýni undir rós. Þú veist þetta kona. Þú veist hvað bakkus gerir þér. Þú átt svo margar minningar, tengdar honum. Þú vilt ekki bæta við þær.
 
Ekki meira samviskubit. Einbeittu þér að hinu góða. Því sem þú gerir vel. Því sem þú hefur gert vel. Lokaðu á óvininn sem hvíslar endalaust að þú sért vonlaus. Ónýt. Byggðu þig upp með hrósinu. Mér finnst þú frábær. Ég á góðu minningarnar. Ég veit þú átt þær líka.
 
Ekki gera neitt, því að ég segi að það sé betra. Gerðu það því að þú veist að það er betra.
 
Þú átt bara eina þig. Og losnar ekki við þig. Láttu þig ekki dreyma það. Vertu með þér, vertu góð við þig. Elskaðu þig. Því þú ert þess virði.
 
Þó að dagarnir verði mislangir og oft á tíðum erfiðir. Taktu þér stund fyrir þig. Bara þig og engan annan. Lestu ljóðin sem þú elskar. Flettu bók. Láttu renna í freyðibað og berðu á þig krem. Hlustaðu á góða tónlist. Leyfðu ekki ginningunni sem segir að flóttinn sé góður að komast að.
 
Lokaðu og læstu. Eldaðu góðan mat. Farðu í þægilegustu fötin. Kveiktu á kerti. Rifjaðu upp góða minningu. Skrifaðu ljóð. Ég veit þú getur það. Vertu þú en ekki hún. Því við elskum þig öll. Taktu einn dag í einu. Elsku vinkona. Því hann er ekki vinur þessi óvinur.
 
steina@spegill.is