Sönn saga unglings frá seinni heimstyrjöldinni


Mig langar til að segja ykkur sögu af merkum manni, pabba mínum, sem féll frá árið 2010 þá 84 ára gamall og búinn að berjast við krabbamein í tæp tvö ár. Hann var alltaf ótrúlega heilsuhraustur og hefði örugglega orðið miklu eldri ef meinið hefði fundist fyrr.
Hann var orðinn mjög veikur þegar sonur systur minnar tók viðtal við hann vegna ritgerðar. Þetta viðtal um ár hans í síðari heimstyrjöldinni, var tekið upp. Hann dó skömmu síðar. Hljóðritið var sent til mín til að fara yfir það, en ég gat ekki hlustað á það til að vinna úr því – fyrr en núna rúmum tveim árum síðar.
Saga hans sem sautján ára gömlum ungling við Loftskeytaskólann árið 1943 er merkileg. Það eru sjálfsagt ekki margir aðrir en mögulega frá hans kynslóð, sem segja svona frá sínum unglingsárum.
Hér er sagan hans pabba – frá fyrsta túrnum sem loftskeytamaður, þó ekki útskrifuðum. Með hans eigin orðum.

Ingólfur Finnbjörnsson, fæddur 1925 – dáinn 2010.

Er ekki best að byrja á árinu 1943. Þá geysaði heimstyrjöldin seinni hérna og ég var þá í Loftskeytaskólanum, 17 ára gamall. Þá settu þjóðverjar hafnbann á breta. Þetta var hernaður í algleymingi, sjóhernaður á kafbátum. Þjóðverjar voru með kafbáta. Breski herinn hertók Ísland og þeir stjórnuðu ferðunum þannig að þegar þú fórst héðan með fullfermi af fiski og áttir að fara til Englands með það, losa þar svo þeir hefðu eitthvað að éta, þá komu enskir officerar um borð í hvert einasta skipti, með umslög og pappíra innaní og þetta var innsiglað. Þar voru gefnar upp stefnur, hvernig við áttum að sigla því þeir voru að verjast kafbátunum. Og eftir þessum stefnum settu þeir sín herskip sem voru með djúpsprengjur því hernaðurinn gegn kafbátunum var aðallega þannig. Það sem þeir komu líka með um borð, ensku officerarnir, var stór kassi með vélbyssu og hermannariffla og kenndu mér á þetta. Ég átti að raða í vélbyssuna 200 skotum og á 50 skota millibili átti að vera svokölluð eldkúla. Þannig sá maður stefnuna sem maður skaut á. Þeir sögðu að ef við sæjum tundurdufl á floti ættum við að skjóta á þau svo þau mundu sökkva.

Svona byrjaði þetta eiginlega hjá mér. Ég drógst þarna inní heimstyrjöldina síðari, sjóhernaðinn, óafvitandi, með eina vélbyssu og þrjá eða fjóra riffla.

Svo fórum við þessa réttu línu og fyrsta herskipið sem við sáum í hafinu – það mátti ekki nota venjuleg loftskeytatæki því að kafbátarnir gátu miðað okkur út. Svo við notuðum svokallaða ljósamorsa. Samskiptin við herskipin voru öll svona og loftskeytamennirnir um borð voru þeir einu sem gátu staðið í því. En svona fórum við, fyrsti túrinn sem ég fór og svo var fiskurinn losaður þarna úti í Hull.
 
Ég fékk undanþágu til að fara í þessa ferð því ég var ekki útskrifaður. En loftskeytamennirnir vildu helst ekki sigla því það var svo mikil hætta þegar verið var að skjóta á skipin svo þeir fóru bara í land. Þessvegna var komið uppí skóla til að fá menn þar. Þá var athugað hvort við værum nógu góðir í þetta og ég var einn af þeim hópi og lenti í þessu. Svo þetta var byrjunin á mínum ferli. Þá var ég 17 ára nemandi í skólanum. Við vorum undir skipunum breska flotans, algjörlega. En ég var bara þennan eina túr í þessu. En síðan þegar ég útskrifaðist sem loftskeytamaður þá hélt ég áfram. En í þessum túr, þegar við vorum búnir að losa fiskinn þá fórum við heim aftur og þetta gekk bara ágætlega. Ég hélt svo áfram í skólanum og kláraði þetta próf. Var síðan loftskeytamaður í ein fjórtán ár. (Ingólfur Finnbjörnsson – 2010)
 
Til minningar um þig elsku pabbi minn, vil ég að þessi saga lifi.
 
Lísa Björk Ingólfsdóttir